Skápur1

ok, búin að henda gamla skápnum út
og finna útúr því hvernig ég kem þeim nýja fyrir þó rörin séu þarna 
búin að finna smið  og panta skápinn
búin að sparsla/mála á bakvið skápinn (alls sem kemur ekki til með að sjást .. )
sjá before & after myndirnar – þeim á eftir að fjölga
Svo um helgina ætla ég að finna flísar og slípa niður meira af hrauninu, sparsla og mála brjóta í burtu gömlu flísarnar og setja nýjan þröskuld inní stofu ..
Hafa þetta sæmilegt þegar skápurinn er til svo smiðurinn geti gengið beint í verkið.  
Birt í Uncategorized | Færðu inn athugasemd

út úr skápnum

Beggó var að draga nýtt rafmagn í forstofuna hjá mér um síðustu helgi. Þá þurftum við að rífa niður klæðningu úr loftinu (æ- hún var hvort eð er ljót) til að komast að dósinni. Þá sáust áberandi skil á veggjunum þar sem klæðninginn hafði hulið og afgangurinn sem er hraunaður.. eitt leiddi af öðru.. Nú er ég að slípa niður hraunið og já, forstofuskápurinn er búinn að syngja sitt síðasta og ég er að rífa hann niður og búin að finna gasalega lekker skáp í Axis, en þá þvælast fyrir mér Mannesmann pressfittings, utanáliggjandi hitalagnir sem voru lagðar inní skápinn og útúr honum meðfram loftinu, en ég held ég sé búin að finna útúr því hvernig best er að föndra sig framhjá því. Ég þarf að fara uppí Axis með breytingatillögur og ný mál. Það er ekki víst að ég fái hurðirnar fyrir jól. Nú er ég að velta fyrir mér hvort ég eigi ekki að skipta um flísar í forstofunni fyrst ég er að þessu á annað borð. Orðin svona gasalega flink að fúa og allt!

Ég er komin með myndavélina mína heim, þá get ég búið til before & after myndir, eins og þegar ég tók bláa herbergið í gegn. Svona vesen er skemmtilegt.

Ég kíkti á skápinn hjá Ástu. Vá! passar ekkert smá vel inn hjá henni. Skoðaði líka sófann sem hún er að hugsa um. Hann er glæsilegur og gott að sitja/liggja í honum, en hann er kannski full-stór. Ég er ekki viss um að stofan beri hann.

Birt í Uncategorized | Færðu inn athugasemd

Fram og annar fótbolti

Mér finnst næstum eins og ég sé flutt í Fram-heimilið þessa dagana. Foreldrafundir, borga æfingagjöld, gráðun í taekwondo, kaupa galla, fjáröflun fyrir handboltann – you name it !   Svo eru þeir með ókeypis kaffi :>
 
Eydís er á fótbolta æfingum 3x í viku fyrir skóla. Við vöknum kl 6 og keyrum í Fífuna Kópavogi. Hún æfir aðallega mark og er nánast með einkaþjálfara þar sem hún var sú eina sem tók það fram að hún vildi fá markmannsþjálfun.
 
Á meðan tek ég létta hlaupaæfingu á túnunum fyrir utan og kem svo inn og fæ mér kaffibolla, les Fréttablaðið og heyri pabbana tala um fótbolta og húsbyggingar. Afskaplega notaleg byrjun á deginum.
 
Það eru æfingabúðir í karate um helgina. Sensei Poh Lim 6.dan er mættur enn og aftur. Ég hlakka til.
 
b
Birt í Uncategorized | Færðu inn athugasemd

Sarojini

 
Ég fékk svo fallegt bréf frá SOS-stelpunni minni, Sarojini í Sri Lanka
Hún er ca. 16 ára og svo myndarleg og gæfuleg þessi stelpa.
 
Mig langar til að skrifa henni, en veit ekki hvert ég á að senda bréfið.
Uppá síðkastið er alltaf límt yfir adressuna á þorpinu hennar á umslögunum sem berast og óskað eftir að óskilapóstur sé sendur eitthvað allt annað.
Hálfgerður vandræðagangur á mér.
 
En hvað gerist svo núna þegar hún er að verða fullorðin? Flytur hún að heiman ? Fer hún í framhaldsskóla / vinnu / hjónaband ?
Ég vil gjarna hjálpa henni og sjá til þess að hún geti lært það sem hún vill helst og kemur sér best fyrir hana. Þarf hún kannski að eiga sjóð til að geta gift sig skammlaust, hvað veit ég ? 
En þess utan, þá standa KFUM-og K fyrir "jól í skókassa" söfnun á jólagjöfum til barna í Úkraínu.
 
b
 
Birt í Uncategorized | Færðu inn athugasemd

Eydís er komin með gula beltið

Eydís snillingur er komin með gula beltið í Taekwondo – (ég verð að herða mig og mæta betur karate ef hún á ekki að bruna framúr mér 🙂 Hún fékk afar jákvæða umsögn hjá dómurunum. Þeir sjá "efni" í henni.
 
Mig minnir að ég hafi lofað Malín því að koma með henni að æfa kumite eftir áramót :] Hún er að vísu með brúna beltið, en ég hef gaman af að slást og lærði smá í bootcampinu þ.a. kannski hef ég eitthvað í hana. Sjáum til.
 
Fyrirbæri
Ég lét verða af því að mæta á heimspekifyrirlestur um helgina. ég þurfti að safna kjarki til að mæta ein innanum fullt af ókunnugu fólki. En ég sá ekki eftir því. Það var gaman að hlusta á Bjössa, notalegur húmor. Og það var gott að ryðja nýjar heila-brautir.
5. nóv.:    Oddi 101, kl. 14:00
,,Vitund og viðfang:  Ágrip af grunnhugtökum fyrirbærafræðinnar"

Björn Þorsteinsson, Dr. phil. frá Université Paris 8, stundakennari við Háskóla Íslands og ritstjóri Hugar – tímarits Félags áhugamanna um heimspeki.
Næsta laugardag er samantekt á þeim lestrum sem eru búnir – ég náði bara einum !
og það eru líka æfingabúðir í karateinu um helgina…. =:-O         fyrirbærið tíminn
 
b
Birt í Uncategorized | Færðu inn athugasemd

Veiðiferð

Palli bauð mér út á sjó um síðustu helgi. Veðrið var, já ekki eins og núna, kalt en spegilsléttur sjór og hreyfði ekki vind. Við fórum framhjá Viðey og Engey og aðeins lengra. Borgin var böðuð morgunsól en leit út eins og fíngerð hvít rönd af húsum, með umgjörð af silfruðum sjó og bláum himni. Minnti mig á stórkostlega senu úr Manga mynd. Myndavélin mín er enn "í láni" hjá tengdadótturinni. Mér varð hugsað til myndlistarmannanna í fjölskyldunni og enn og aftur hvað ég vildi að ég gæti málað.
Þarna í kyrrðinni útá reginhafi (ok, kannski ekki reginhafi, en það virkaði þannig á lítilli bátskel) sáum við sjófugla á stangli og Palli náði strax tveimur stuttnefjum sem ég slæmdi uppí bátinn. Svo fengum okkur kaffisopa og mömmu-samlokur. Það var ágætt að hlýja sér aðeins að innan.
Veðrið var kyrrt og fallegt, en það er var kalt að sitja í leti framí bát, þrátt fyrir tvenna ullarsokka, föðurland, lopapeysu, úlpu, húfu, vettlinga.
Því næst héldum við að mynni Hvalfjarðar og veiddum á stöng þartil við nenntum ekki meir. Aðallega þorsk og 3-4 ýsur. Það voru stundum 2-3 fiskar á í einu. Einn slapp og tók með sér sökku og flesta krókana en við veiddum nokkurnvegin uppí veiðarfæratapið. Á heimleiðinni skutum við (Palli þeas) 4 stuttnefjur í viðbót þ.a. þetta var orðinn vænsti túr. Ég fékk að stýra á heimleiðinni, á meðan Palli gerði að aflanum. Ég hamfletti 2 fugla og tók með mér í ..
 
matarboð hjá Beggó

Forréttir

Steiktar stuttnefjubringur með piparrótarsósu,
og perum í karamellu

Aðalréttir

Sinnepsgljáður hamborgarhryggur

með sykurbrúnuðum kartöflum, súrsuðu grænmeti a la Beggó,

rauðkáli og sveppasósu

Eftirréttur

Jóla-hrísgrjónabúðingur með karamellu og berjasósu

 
Til borðs sátu 2 Völur.

b

Birt í Food and drink | Færðu inn athugasemd

14:08

Nú heitir allt einhverjum númerum, eins og 9/11
Kvennafrídagurinn í ár hófst kl 14:08. Þá eru konurnar búnar að vinna þann tíma sem það tekur karlana að vinna fyrir launum þeirra. Klukkan hvað ætli hann hefjist næsta ár? En eftir 10 ár?

Ég vil hafa kvennafrídaginn árlegan og þegar konurnar eru farnar að yfirgefa svæðið eftir klukkan fimm, þá er þetta fínt. Mér finnst vera ákveðin rólegheit yfir jafnréttisbaráttunni.
Gærdagurinn var meira eins og 30 ára afmæli kvennafrídagsins. Ekki mikill baráttuhiti. Konur raula saman "Já, ég þori, get og vil (en ég nenni því samt varla)"

Svo potaði ég smá í Bjarna Ármanns. Hann sendi baráttukveðjur til okkar kvennanna í gær, sem var alveg sætt af honum og gasalega politically correct, en ég vil engar kveðjur. Ég vil jafnrétti ! Sömu laun fyrir sömu störf, en ekki síður sömu störf.
Ég þakkaði honum stuðninginn og spurði hvort Íslandsbanki yrði ekki fyrst fyrirtækja að sækja um jafnlaunavottun hjá félagsmálaráðherra. Hann tók bara vel í það.

 

b

Birt í News and politics | 2 athugasemdir

uppeldi

Ég fór á yfirlestur hjá Hugo Þórissyni á miðvikudag. Mætti reyndar bara á seinni hlutann, því gestirnir voru svo lengi að klára ísinn >:>
Hugo var voða, voða skemmtilegur og tók fyndin (og örugglega upplogin) dæmi úr raunveruleikanum.
En hér er uppeldispunktur 1
(rautt er ranga leiðin, grænt sú rétta)
 
———-
Til að virkja sjálfstæði krakkanna og ákvarðanatöku-heilastöðvarnar látum við þau sjálf um að finna lausnir á málum 
í stað þess að rétta þeim tilbúna lausn.

Dæmi   : Það er kalt úti
Settu á þig trefil og húfu,
það er kalt
Það er kalt úti, heldur þú ekki að þér verði kalt ….
 
Dæmi   : Krakki á eftir að lesa f skólann en gleymdi bókinni í skólanum
Hringdu í Söndru og athugaðu 
hvort hún geti lánað þér bókina
Ææ, ertu ekki með bókina. 
Hvað vilt þú gera í því ?
 
Birt í Uncategorized | Ein athugasemd

Partí helgi !

þetta er með ólíkindum ! Ekkert partý um helgina !?
 
Það er greinilega núna sem ég þarf að dusta rykið af verkefnalistanum:
 * geymslan
 * lakka gluggann hennar Eydísar
 * Rafmagnið og flísarnar í eldhúsinu
         <shuffle shuffle .. >
 
Ekkert hlaup á sunnudaginn nema vera búin með eitthvað af þessu
Uppeldinu lýkur aldrei :]
 
Stella í heimsókn
Stella, Katrín og Gústi komu í mat á miðvikudaginn. Ég keypti nýjan borðdúk – agalega fínan, og steikti silung í möndlu-hvítvínssósu og Katrín hjálpaði mér að baka eplapæ með ís.
Þau líta bara vel út. Ameríkan og fellibylirnir hafa farið vel með þau.  Myndavélin mín er í láni hjá "tengdadótturinni" þ.a. ég tók engar myndir. Gústi fer aftur út um helgina til að keyra meira, en Stella verður framyfir áramót og gistir hjá mömmu sinni. Það verður gott fyrir Katrínu og Arnar Má
 
brekkuhlaup í gær
Hlaupahópur Íslandsbanka kom saman í gær kl 17:30
Við byrjuðum á hring í Laugardalnum og hlupum svo upp tröppurnar að Áskirkju og áfram niður að Laugaási. Svo aftur til baka upp brekkuna og svo niður tröppurnar og aftur upp .. 4 ferðir.
Ég var búin að svindla aðeins og æfa mig í tröppunum við Áskirkju um síðustu helgi. Ég var orðin of sein á tónleika hjá Dómkórnum og ég sveitastelpan hélt að Áskirkja væri Langholtskirkja og hljóp upp tröppurnar.. "Áskirkja" já einmitt. Brunaði svo að Langholtskirkju og mætti móð og másandi í fyrstu tóna kórsins. Pétur Máte spilaði á píanó, Kristinn Sigmundsson söng.. ekki mjög amalegt!
 
b                                  smá illkvitnis starwars grín   
Birt í Uncategorized | Færðu inn athugasemd

Veit efnið af andanum?

hvernig væri að skella sér á fyrirlestraröð í heimspeki ?

 
Hugsa nýjar hugsanir, ryðja nýjar heilabrautir.

Ég veit að mér veitir ekki af því ..
 
Birt í Uncategorized | Færðu inn athugasemd