
föstudagur:
Við vinkonurnar renndum úr bænum norður í land til að bæta Herðubreið í fjallasafnið. Tvær tölvukonur að sunnan, á háum hælum og nýjum göngubuxum. Þegar við komum til Akureyrar spurðum við til vegar að ríkinu, því ekki er grill án gullinna veiga.
Ferðafélagar söfnuðust saman við hús FFA og sendu hverjir öðrum rannsakandi augnagotur, þar til þeim var raðað í fjallabíla. Við vinkonurnar unnum í lottóinu og fengum að sitja í hjá fararstjórunum Ingvari og Konna. Ökuferðin austur í Mývatnssveit leið eins og örskot undir fróðleik og lygasögum úr sveitinni. Veðrið var eins og best gerist, jafnvel á norðurlandi. Sól og blíða og bros á hverjum manni.

Á leiðinni inn að Herðubreiðalindum skoðuðum við fjallakofann "Tumba" sem var afdrep gangnamanna og hlýddum á sögur af Fjalla-Bensa sem lét sér ekki margt fyrir brjósti brenna.

Jeppalestin kom í Herðubreiðarlindir í blíðskaparveðri og við nutum kyrrðarinnar og náttúrufegurðarinnar. Tignarleg Herðubreið minnti á klippimynd þar sem hana bar í heiðan kvöldhiminn og við hugsuðum okkur gott til glóðarinnar að klífa "Drottninguna" daginn eftir.

Hópurinn gisti í Þorsteinsskála sem er ljómandi þægilegur og um kvöldið las Ingvar Teitsson fyrir okkur sögur af Fjalla-Bensa þar til frakkarnir ráku okkur í háttinn.

laugardagur:
Morguninn eftir, þegar til stóð að æða á fjallið, hékk skýjabakki niður í miðjar hlíðar og ekki vænlegt til uppgöngu. Það kom flatt á okkur borgarbúana, sem högum plönum skv. "Calendar".
Eftir hafragraut og tvo kaffibolla og lúku af bláberjum var komið plan B. Fararstjórnarnir færu með okkur í Öskju og Víti og Drekagil og svo á Drottninguna á eftir, þegar rofaði til. Öll voru þessi nöfn ógurleg og staðirnir áður óséðir þ.a. þetta var "2 fyrir 1" tilboð.
Við nutum dagsins og skoðuðum Öskjusvæðið. Veðrið var kalt, enda vorum við þarna komin í um 1000m hæð. Nokkrar hugaðar konur og enn hugaðri karl syntu í Víti, og höfðu baðvörð til að uppfylla skilyrði ESB um almenningsböð. Syndararnir fundu hópinn við vörðu sem reist var til minningar um Knebel, þýskan vísindamann sem týndist við rannsóknir á Öskuvatni.

þá var stoppað í Nautagili. Þar voru fyrstu tunglfararnir við æfingar 1965 og 67 og heitir gilið eftir þeim (Astro-Nauta gil 🙂 húmorinn er frá Sigurði Þórarinssyni jarðfræðingi kominn. Konni sagði okkur nokkrar gamansögur eins og honum einum er lagið og heyrðist jafnvel enn betur í honum en venjulega þarna á milli klettaveggjanna. Í gilinu er stórmerkileg "rós" eða stjarna í klettavegg og létu margir taka mynd af sér inní rósinni.

Á heimleiðinni skoðuðum við Glúfrasmið þar sem Jökulsá hefur grafið sér glúfur og beljar ógurlega.
Enn gaf ekki á Herðubreið, en menn þóttust þess fullvissir að betra veður væri í kortunum.
Heima í Þorsteinsskála fengum við okkur síðdegisblund að sveitamannasið, en vorum svo rekin á fætur með þeim orðum að ganga um Álftavatn hæfist eftir 2 mínútur! Þá var best að haska sér.
Við skoðuðum Vatnstankana sem sjá svæðinu fyrir vatni og Eyvindarhelli, hvar Fjalla-Eyvindur hírðist heilan vetur eldlaus og nærðist á hvannarót og hráu hrossakjöti. jamm!
Á vatninu voru nokkrar endur, flestar með ótrúlega smáa unga. Skyldi varp hafa misfarist í vor? Svo sáum við fallega álftafjölskyldu – par með þrjá stálpaða unga. Við gengum að ármótum Jökulár og Kreppu til að ná örugglega upp matarlyst og gekk á með gamansögum. Á heimleiðinni gróf Ingvar upp hvannarót og gaf okkur að smakka. Hún líktist sellerírót. Það var viðeigandi lystauki fyrir grillið um kvöldið og þóttust margir hressast allverulega.
Á kvöldvökunni sagði Ingvar söguna af týnda vísindamanninum Walter von Knebel og unnustu hans Ínu von Grumbkow, sem gerði út leiðangur til að kanna afdrif hans og tók svo að lokum saman við jarðfræðinginn dr. Hans Reck sem kom með henni til Íslands. Dramatísk saga sem sómir sér vel í óperu. (ég sendi sms til Atla Heimis, hef enn ekki fengið svar ..)

sunnudagur:
Þegar við vöknuðum á sunnudagsmorgni var enn þungbúnara en á laugardaginum og ljóst að Drottningin gæfi ekki færi á sér þann daginn. Við vinkonurnar vorum sammála um að okkur væri slétt sama. Ferðin var þegar orðin kjaftfull af fróðleik og fjöri og svo mikil upplifun að við værum komnar með 5 fyrir 1. Herðubreið er ekki að fara neitt og hægt að gera aðra tilraun seinna. Einn orðaði það svo "við sluppum við að þurfa að ganga á fjallið". Ekki voru allir sama sinnis.

Sumir héldu heim á leið þegar ljóst var að ekki yrði gengið á Herðubreið, en þá sem verða seint saddir, leiddu fararstjórarnir í nestisferð inní Hrossaborg. Við sátum í sól og hita, en "nokkrum metrum" sunnar var Herðubreið með hár niður á herðar.

Svo skoðuðum við Sæluhúsið við Jökulsá, eitt af örfáum húsum á Íslandi hlaðið úr höggnum steini.
Við röltum í sól og steikjandi hita heim að "Klaustri", jarðhýsi sem var afdrep gangnamanna. Enn eitt dæmið um hversu stórt stökk við tókum, í átt til betri lífskjara, á síðustu öld. Þaðan sáum við líka 3 kynslóðir þjóðvega, all-ólíka. Frekar en láta staðar numið við svo búið, þá var staldrað við á Fuglasafni Sigurgeirs við Mývatn. Það var ótrúlega glæsilegt og gaman að finna enn nýjar perlur.

Fegurð daganna felst í fólkinu sem þú deilir þeim með.
Takk fyrir óvenju fagra helgi.
tvær að sunnan
Birna Guðmundsdóttir og
Ásta Sigurjónsdóttir
p.s. Hvað fáum við á prófinu Ingvar? 8,5?