Staðan í lotu II

 
Eftir frækilega fjallgöngu erum við Ásta á toppnum
Vala og Yngvi sem sátu heima sveitt yfir Oraclix og komust hvergi fylgja fast á eftir
Magga sem trimmaði á milli búða í Boston rekur lestina. Svona er nú það.
 
1,8%

Birna

1,3%

Ásta

0,8%

Vala

0,7%

Yngvi

0,5%

Magga
Birt í Uncategorized | Færðu inn athugasemd

Hvannadalshnjúkur

 
Ég gekk á Hvannadalshnjúk á laugardaginn með Ferðafélagi Íslands. Sandfellsleiðina (læt eins og ég þekki einhverja aðra leið)

Nýjar græjur (alvöru ferð): 

    • Ísexi,
    • Kvennbroddar (kommon! ég er feministi),
    • göngubelti 
    • gasalega lekker göngupeysa sem meðtekur ekki svitalykt
Við lögðum af stað uppúr kl 5 í dásamlegu veðri. Bjart og dálítið kalt, sólin nýkomin á loft. Hnjúkinn bar við himinn og útsýnið var mikilfenglegt* lengi framanaf .. allan tímann fannst mér við vera hrossahópur, stigum upp brekkuna, nudd í bakpokum og spark í stein, másandi.
Í 400 metrum áðum við og fylltum á vatnsbrúsa í fjallalæk. Dagurinn ennþá glænýr, blóðið komið af stað og flíspeysunni troðið í bakpokann.
í 900 metrum dró ský fyrir sólu. Satt best að segja var ég mjög fegin, gat tekið ofan skíðagleraugun og hætt að blóta ullarnærbuxunum. Ég veit heldur ekki hvernig við hefðum litið út ef sólin hefði skinið allan daginn. Ásta var okkar sólarvörn og lánaði okkur öllum krem með 50x vörn, samt erum við komin með bændabrúnku og freknur.
Í 1100 metrum skipti hópurinn sér á línur. Eftir það gengum við í kippum bundin saman eins og leikskólabörn. You never walk alone. Jafnvel grandvarasta fólk notaði óprenthæf orð um línuna í lok dags. Aftasti maður hjá okkur, Þórarinn afturendi, lenti í vandræðum og fékk krampa í fótleggina hvað eftir annað. Dótinu hans var dreift í aðra poka og hann fóðraður á orkudrykkjum og glúkósa. Sem betur fer náði hann sér á strik og komst alla leið.
Í 1500 metrum var komin él og fólk týndi á sig fleiri peysur, nema Guðbjartur pabbi hennar Völu. Hann gekk berhentur í bol. Ég breyttist í ömmu mína og sagði honum að fara nú í vettlinga eða flíspeysu, en honum leið vel. Sumir eru bara meira hot en aðrir.
Síðasta spölinn köstuðum við af okkur bakpokum og festum á okkur broddana og notuðum ísaxir okkur til halds og trausts. Nú var ferðin orðin "fullorðins". Við kjöguðum áfram, barin í framan af frosti og él en sáum varla fremsta mann á línunni. 
Á toppnum var skyggnið um 3 metrar. Frábært að vera komin á toppinn! Gangan upp var léttari en ég hafði ímyndað mér og tíminn leið hratt. Ég vonast eftir að fá fljótlega sendar myndir af mér með hélað hár. Myndirnar svo sem sanna ekki neitt. Hefðu getað verið teknar í hvaða snjóskafli sem er.
 
Nú var ég búin að borða mest allan matinn og nota öll fötin .. og komið að því að ganga á brauðfótum þessa sömu leið til baka. Merkilegt hvað hún var mikið lengri … en ég tók þessu eins og hverri annarri fæðingu. Nota alla  þolinmæðina og þrauka í trausti þess að þetta muni taka enda. Næst tek ég með mér skíði. Jökullinn er dásamlega falleg skíðabrekka alveg niður í 1100 metra. Einn ferðafélaginn sagði reyndar "Við gengum á hæsta fjall Íslands og svo er fólk hissa á það sé langt niður"
Við gengum svo að segja alveg frá sólarupprás til sólarlags. Ég held að mín lína hafi verið tæpa 16 tíma á göngu.
Þetta var frábær ferð. Ásta, Svanberg og Guðbjartur eru mjög góðir ferðafélagar. Við vorum sammála um að við værum ekkert þreyttari en eftir venjulegan Fimmvörðuháls en mikið vorum við ljót þegar við vöknuðum daginn eftir, sólbrennd og þrútin.
Það er svo mikið fleira í kringum svona ferð en bara gangan. Við Ásta fengum far hjá Svanberg. Ég dormaði í aftursætinu. Suðurlandið er fallegt. Eyjafjöll, jöklasýn, fossar og skoppandi lömb útum allt. Hamborari í Vík í Mýrdal (hafið þið tekið eftir því að Vík í Mýrdal er alls ekkert í Mýrdal?)
Svo fór ég á Esjuna í gær, uppað læk og fann ekki fyrir þreytu. Mér finnst það með ólíkindum. Við Ásta erum komnar með geðveika kúlurassa og mölum megrunarkappið
 
b
 
*ég varð að nota langt orð, "voða voða flott" var ekki nógu lýsandi
Birt í Uncategorized | 5 athugasemdir

Blómabarn

 
Lítil stelpa stendur fyrir utan stofugluggann, með rauðu túlípanana mína í fanginu.
Við erum sammála um að túlípanar séu fallegir.
 
b
Birt í Uncategorized | 3 athugasemdir

Bindileikir

 
Þegar ég var í sveit sem unglingur voru baggabönd notuð í allar minniháttar viðgerðir.
Nú hefur duct tape tekið við.
 
b
Birt í Uncategorized | 2 athugasemdir

Kennslukona

 
Ég gerði örstutta könnun á því hvað fólki fyndist að ég ætti að rukka fyrir einkatíma í stærðfræði.
Tölurnar rokkuðu milli 800 (Baldur, fáðu þér vinnu!)  og 5.000. Einnig kom tillagan "Ekkert ef hann er sætur, annars 1 bjór". Einn bjór í verðlaun ef þið fattið hvaðan sú kom. . .
Algengast var að fólk nefndi 2, 3, og 5 þús. Myndrænt kemur þetta svona út (smella -> stærri mynd):
Talnatök taka 5.000kr fyrir einkatíma. Þau kenna aðallega á framhaldsskólastigi.
Birt í Uncategorized | Færðu inn athugasemd

Lota I – Yngvi vann

Lokaniðurstöður úr lotu I

Yngvi 1,3%
Birna 0,8%
Vala  0,8%
Magga 0,5%
Ásta  0,5%

Ég lít svo á að ég sé að safna vöðvum sem koma mér til góða í næstu lotu

b

Birt í Uncategorized | Færðu inn athugasemd

KONA graffar

 
Það vekur sérstaka athygli að kona með barnabílstól í bílnum skuli gera eitthvað af sér.
Dásamlegt! þetta þýðir að ég get rænt banka en enginn trúir því uppá mig!
Ég keypti kúbein áðan, rautt.  Ég á nælonsokkabuxur .. "Ég verð enga stund krakkar mínir!"
 
b
Birt í Uncategorized | Færðu inn athugasemd

Bleikt og blátt

 
Sóley stendur sig í tölfræðinni og heldur utanum kynjahlutföll í Silfrinu fyrir Egil.
Að jafnaði talaði hann við 5,5 karla og 2,2 konur. Svona sér hann samfélagið.
 
Birt í Uncategorized | 4 athugasemdir

Reykjavíkurmeistarar og rennblautar!

Til hamingju stelpur !
 
Fram stelpurnar fengu Þrótt R í heimsókn og þurftu að hafa heilmikið fyrir því að halda þeim á mottunni í fyrri hálfleik á móti roki og rigningu. En með góðu samspili og baráttu skoraði Áslaug 2 mörk og Elva 1 fyrir leikhlé. (ég held ég sé ekki að ljúga, tapaði stundum af markatölunni í leiknum)
Snemma í seinni hálfleik, þrátt fyrir öfluga baráttu stelpnanna í Þrótti, tókst okkar stelpum að bæta 2 mörkum við á stuttum tíma og þá fór vindurinn aðeins úr andstæðingunum og við sölluðum inn hverju markinu á fætur öðru.
Undir lokin skoruðu Þróttar stelpurnar mark og færðust þá allar í aukana og náðu öðru skömmu síðar. Þ.a. Eydís fær engan ís núna. Enda er hún ís-köld og má ekki við því.   Lokatölur 9-2

Markaskorarar
Áslaug 6 mörk
Elva   2 mörk
Hafdís 1 mark

 .. held ég

Birt í Uncategorized | Færðu inn athugasemd

Fötin skapa manninn

ég var ekki að hlusta á útvarpið, samt heyrði ég þulinn afkynna lagið
"Krúsníkov spilaði fiðlukonsert á g-streng .."
b
Birt í Uncategorized | Ein athugasemd