Norður og niður

Baldur minn er kominn með bílpróf. Ég ætlaði að gefa honum bílinn minn þegar þeim áfanga væri náð, en það átti að verða fyrir 2ur árum. Nú væri dósin mín fremur refsing en gjöf. En hvað um það, hann "skutlaði mér" til Grundarfjarðar á föstudaginn (á refsingunni) þar sem hann ætlaði í heimsókn til kærustunnar.  Löggan stoppaði hann þegar hann beygði inná Vatnaleiðina yfir Snæfellsnes. Baldur gat bara framvísað blaðsnepli sem ökuskírteini. Löggan var frekar tortryggin og Baldur var frekar stressaður, sem gerði lögguna enn tortryggnari, en hann hafði ekkert gert af sér og það gildir vanalega.

Eftir kaffi og meððí hélt ég áfram norður og keyrði útúr góða veðrinu inní svarta-þoku á Laxárdalsheiði (59). Þegar ég kom niður hjá Borðeyri var ég komin með nóg og svaf á tjaldstæðinu. Borðeyri, stærsti smábær í heimi. Minn staður.   

Daginn eftir vaknaði ég í klassískum sudda og norðan garra. Hvernig datt mér í hug að yfirgefa sólina !? Ég rúllaði til Hvammstanga í sund og skolaði því niður með kaffi, þá heldur skánaði skapið og ég hélt mínu striki norður.

Blönduós – með tilheyrandi kaffibolla og kökum hjá ömmu og Rúnari. Gréta kíkti við og lofaði að skila kveðju til Arísar sem hefur skotið rótum í Danmörku og róta-rótum (hún er orðin amma).

Þaðan fór ég Þverárfjall yfir til Skagafjarðar en sá enga ísbirnu, pínu svekk.

Ég fór Fljótin yfir til Ólafsfjarðar, ég hef ekki keyrt þessa leið síðan ég var á gulum Volvo Amazon ’66 módel. Það var nú bíll í lagi. (þetta blogg er að breytast í bílaþátt)
Fljótin er fögur .. ég sendi einn fingurkoss að Bjarnargili, þaðan sem Bjarni Trausta er, skólabróðir og Interrail-ferðafélagi og karl faðir hans, Trausti skíðagarpur sem var með í Héðinsfjarðar og Hvanndalagöngu FÍ fyrir 2ur árum. Góður göngufélagi. Hann dreif allan hópinn í að synda í hverjum polli sem á vegi varð, enda dásamlegt veður.

Ég mætti akkúrat í mat á Ólafsfirði. Þar voru nokkrir vinnufélagar að hita grillið.  Upphófst gleðskapur og ég naut góðs af og fékk gistingu í skjóli frá gjólu. Þau voru búin veiðistöngum og vildu draga björg í bú. Ég er heldur á móti slíku stússi og kaus að lesa morðsögu og sötra kaffi. Mér var hlýrra en þeim.

Ég ók í gegnum Ólafsfjarðar göngin, þegar ég nennti á fætur daginn eftir (þau fóru að veiða kl 7 – múhahahaha, ekki ég sko..)   og heimsótti Heiðu og Hjalta litla frænda minn á Dalvík. Hann er orðinn 2ja ára og ég hef aldrei séð hann áður, nema á mynd.  Það var gaman að kynnast þeim og spjalla við Heiðu og Palla. Þau eru langt komin með að gera upp hús á Dalvík og eru í þann mund að flytja inn. Mér hljóp kapp í kinn og er búin að setja saman eina bókahillu, farin að raða saman eldhúsinnréttingu í huganum og velja flísar á pallinn. Í kvöld pússla ég saman fataskáp fyrir Eydísi. Þetta stuð endist vonandi út vikuna.

Á heimleiðinni kom ég aftur við hjá ömmu og Rúnari. Þetta var góð helgi. Grillveisla og 2 kaffitímar hjá ömmu.

Þegar ég kom heim og steig á vigtina, komst ég að því að hún er eitthvað biluð ..

b

Óþekkt's avatar

About birnabirna

Mostly harmless
Þessi færsla var birt þann Uncategorized. Bókamerkið varanlega slóð.

Færðu inn athugasemd