Helgin var svo viðburðarík að mér finnst ég hafa verið í 2ja vikna sumarfríi.
Þingvellir
Á föstudaginn lét ég mig hafa það að mæta í grillpartý á Þingvöllum með vinnufélögum Yngva. Rugludalla-stuðuls mælirinn bræddi úr sér. Við hoppuðum útúr langferabifreiðinni á Nesjavallaleiðinni og hjóluðum yfir holt og hæðir eftir stórgrýttum stíg. Veðrið var æðislegt, en stígurinn var varla fær öðrum en fuglinum fljúgandi. Ég datt af mínu götuhjóli, oftar en einusinni og var álblóðug í lófunum eftir. Við fórum í bæinn um kl 2 um nóttina og þá var ég orðin dálítið stressuð yfir að ná ekki nægum svefni, því ég var skráð í Bláskógarskokk morguninn eftir.
Bláskógaskokk
Illa sofin, kannksi smá timbruð og svöng .. hljop ég 16 km í fallegu veðri, ryki og flugum. Fyrstu 4-5 km voru (helv.) þungir. Það er meir en að segja það að tosa 70 kg upp brekkur. Ég var að hugsa um að hringja eftir leigubíl, en ég var ekki með símann. Á síðustu kílómetrunum fóru 4 framúr mér, þrátt fyrir að ég reyndi að skamma þau og skikka til að halda sig fyrir aftan mig. En ég kláraði hlaupið, síðust í mark að vísu, en ég var á betri tima en þeir sem ekki hlupu. Við sundlaugina var tekin mynd af öllum sem fengu verðlaun. Mér fannst að það ætti að taka aðra mynd af okkur hinum sem ekki fengum verðlaun. Við vorum færri.
Bergþórshvoll
Beggó bróðir og Regína eru búin að kaupa sumarbústað í Fljótshlíðinni. Þau nefna hann Bergþórshvol :] og við fórum í heimsókn til þeirra eftir hlaupið. Tilheyrandi grill og viský og notalegheit. Dásamlegt að láta líða úr sér hjá þeim. Ég er búin að ráða mig í vinnu við að fúaverja.
Seljavallalaug og dekkjaviðgerðir
Morguninn eftir (um kl 14) fórum við á Benz og Hummer (rúllandi augu) í sund í Seljavallalaug. Benzinn þolir nú ekki svona malarvegi og loftið lak úr öðru afturdekkinu. Við heimsóttum ýmsa bílskúra á suðurlandinu og fengum loft í dekkið og skiptum yfir á varadekkið sem reyndist líka bilað! og jeppadekkja viðgerðir með töppum. Hún entist 100km. Svo prófuðum við froðu í brúsa, sem entist ekki yfir planið. Beggó og Regína skutluðu okkur á Hummer með biluð dekk um allt suðurland. Að lokum reddaði okkur kall sem býr nálægt Rauðalæk. Alveg frábær kall. "Útkall, hellings vinna, 30þús kall", en svo rukkaði hann 1500kr. Það var ekki dýrt, en þjónustan snögg og góð.
Við mættum ca 4 tímum of seint í matarboð.
Þetta var góð helgi