Klipp-klikk!
Þegar ég var yngri fannst mér alveg æðislega gaman að leika mér með skæri. Ég klippti allt sem ég sá; pappír, barnabækur, gömul föt, hár af dúkku, nær allt sem ég komst í. Ég var nú ekki komin útí það að klippa í sófa eða rúmföt, var meira bara með litla og saklausa hluti.
En einn daginn var ég búin að klippa allt sem mér datt í hug. Moggann í dag, sjónvarpsdagskrána, strokleður. Mig langaði að prófa eitthvað nýtt. Tók ég þá eftir þessum gríðarlega hárlubba sem var á hausnum mínum og fannst mér ég þurfa að gera eitthvað í honum. Mundi ég þá hvar hún móðir mín geymdi skærin sín.
Hljóp ég strax inná salernið á efri hæðinni, opnaði skúffu og þar blöstu þessi rándýru "prófessional" skæri. Tók ég þau upp og hófst handa. Duttu niður á gólf dökkir lokkar. Ég hélt áfram en steinhætti þegar ég heyrði að mamma og pabbi voru komin heim. Hljóp ég inní herbergið mitt og þóttist vera grátandi. Heyrði pabbi þá í mér, hljóp upp og spurði hvað væri að. Sagði ég þá að stóri bróðir minn sem átti að fylgjast með mér hefði klippt af mér hárið. Bankaði pabbi þá hjá honum og spurði hvort það væri satt. Neitaði hann að sjálfsögðu. "Hún hefur gert það sjálf" sagði hann. Pabbi leit á mig og þá viðurkenndi ég. Daginn eftir fór mamma með mig í klippingu og enn þann dag í dag er ég með sömu klippinguna!
Eydís Blöndal á samræmdu íslensku prófi í 7.bekk