Úff’ alveg úrvinda eftir 2 sólardaga í röð..
Við Vala lögðum á Fimmvörðuhálsinn á laugardaginn.
Í þetta sinn vorum við búnar að ákveða að ganga fram og til baka, en ekki bara tala um það. Tókum af stað í þoku, en henni létti fljótlega. Glampandi sól og blíða alla leið. Ég hef séð ýmislegt á hálsinum, en aldrei áður svona gott veður !
Við hittum Huldu, Þröst og Sif með miklar matar og sælgætisbirgðir við Fúkka.
Sif stóð sig eins og hetja. Bar mestallan matinn fyrir foreldra sína.
Þau eru aðeins farin að reskjast og þurfa að spara sig fyrir brúðkaupið í águst.
(by the way, þau eru með gjafalista hjá Svefn&heilsa Listhúsinu, vilja heilsurúm, hróin)
Helstu millitímar :
12:20 Brottför frá Skógum
15:30 Brú (hálftíma stopp á grasbala nokkru áður)
16:40 Fúkki (alveg 50 mín stopp)
19:50 Morinsheiði
21:30 Básar (doldið lengi í restina)
þ.a. þetta voru ca 9 tímar. Það er allt í lagi
Ég á sönnunargögn fram að Fúkka, svo varð myndavélin batteríslaus. En ég fór yfir! Það eru vitni.
Í Básum byrjaði ég á að tjalda elsku fallega, tæknilega göngutjaldinu mínu. Fór í jökulkalda sturtu fyrir nóttina og borðaði grillaðan kjúkling. Ummm, takk fyrir kjúklinginn, hann hvarf uppí mig á augabragði. Ég var þreytt og köld eftir sturtuna og þetta var einmitt það sem ég þurfti. Ég náði því ekki að klára bjórinn áður en ég skreið í poka og sveif inní draumalandið.. Z zzz. Vala kom svo og svaf hjá mér, hún er góður bólfélagi.
Gaurarnir í næsta tjaldi, Sothfork, ákváðu kl 1 um nóttina að pakka saman og fara í partý í bænum. Þeim reiknaðist til að þeir yrðu ekki nema svona klukkutíma í bæinn á jöfnum 140 km meðalhraða. Þá voru þeir enn að rífast um hvor væri JR og hvor væri Bobby. Þeim tókst ekki að selja tjaldið.